Nemendur velja sér kjörbækur eða lesefni til að lesa að jafnaði í 15–30 mínútur á dag í skólanum og 10–30 mínútur á dag heima. Hversu lengi fer eftir aldri nemenda og aðstæðum – gæta þarf þess að lesturinn verði ekki kvöð eða nauðung. Kennarar gætu þurft að aðstoða nemendur við að velja sér viðeigandi lesefni en að flestu leyti útheimtir yndislesturinn ekki mikinn tíma í kennslu. Sjálfsagt er að nýta hljóðbækur og jafnvel samlestur ef nemendur kjósa og unnt er að koma því við.
Tíminn sem veittur er í lesturinn er mikilvæg yfirlýsing um að lestur skipti miklu máli og fræðimenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að yndislestur getur aukið við orðaforða, skilning og þekkingu nemenda og þar með námsárangur, til lengri tíma litið (Krashen, 2004; Marzano, 2004). Nám, þar sem áhugi lesandans og þarfir ganga fyrir, er jafnframt líklegt til að stuðla að jákvæðu viðhorfi til náms.
Í yndislestri þurfa nokkrar forsendur að vera til staðar. Lesandinn þarf að finna sér áhugavert og viðráðanlegt lesefni, hafa gott aðgengi að lesefni, hafa tíma til að lesa og ígrunda, og hafa svigrúm til að ræða við aðra um lesefnið án þess að það sé kvöð eða skylda. Ef yndislestur gengur ekki vel er ástæðan oftast sú að áðurnefndar forsendur eru ekki til staðar (Gallagher, 2009).
Sýnishorn - dæmi
Hér hafa nemendur í 5. bekk útbúið bókahillu fyrir framan stofuna sína. Þegar nemendur eru búnir að lesa bók búa þeir til kjöl, þar sem þeir skrá nafn bókarinnar og eigið nafn og setja upp í hillu. Það er yfirlýsing um að búið sé að lesa og að leita megi upplýsinga til viðkomandi nemanda um bókina o.s.frv. Fljótlega er hægt að gera úttekt á hvaða bækur eru mest lesnar, flokka bækur (með ýmsum hætti) og jafnvel búa til áhugasviðshópa, innan bekkjarins, stofna leshringi o.s.frv.