Orð af orði er hugmynda-, kennslu- og aðferðafræði sem hefur að markmiði að efla læsi og námsárangur grunnskólabarna. Lögð er áhersla á að efla málumhverfi, kenna markvisst aðferðir við að sundurgreina námsefni og orð, greina merkingu og inntak, tengsl við annað efni, kortleggja aðalatriði og endurbirta á fjölbreyttan og heildrænan hátt.
Orð af orði kennslufræðin hefur gjarnan verið innleidd og henni fylgt eftir með samnefndu þróunarverkefni í grunnskólum, allt frá 1. til 10. bekkjar. Hver skóli hefur lagað hugmyndir og aðferðir verkefnis að sínu starfi og sérstöðu, mismunandi námssviðum, aldri nemenda og aðstæðum. Í verkefninu hefur námsefni verið valið út frá markmiðum aðalnámskrár og það nýtt sem efniviður í verkefnavinnunni.
Reynsla af verkefninu hefur verið góð, niðurstöður mælinga á lesskilningi, orðaforða og viðhorfum til lesturs sýna jákvæða þróun og margir skólar hafa opinberað slíkar niðurstöður. Þá hafa nokkur meistaraprófsverkefni þar sem Orð af orði kennslufræðin hefur verið notuð til að efla nám og kennslu komið út á undanförnum árum.
Rannsókn höfundar með tilraunasniði (e. experimental design) og samanburði staðfesti tilgátu þess efnis að nemendum færi fram á orðaforðaprófun tækju þeir þátt í mánaðarlöngu inngripi þar sem lykilaðferðir Orðs af orði væru notaðar. Framfarir nemenda voru marktækar (mæling í upphafi og mæling í lok inngrips) og var munur á milli tilraunahóps og samanburðarhóps jákvætt marktækur. Orðalykill, staðlað orðaforðapróf (Eyrún Kristína Gunnarsdóttir o.fl., 2004) var notað sem mælitæki. Aðferðin sem notuð var er dæmigerð aðferð við raunprófun (e. evidence based intervention) en áhersla á að nota raunprófaðar aðferðir í skólastarfi er vaxandi. Prófunin fór fram við raunverulegar aðstæður í 4. bekk.
Höfundur og rétthafi
Höfundur og rétthafi er Guðmundur Engilbertsson, lektor við Háskólann á Akureyri. Sérsvið hans er læsi, nám og kennsla.
Guðmundur hefur haft umsjón með námskeiðum í kennaradeild HA er varða læsi og ýmsum námskeiðum um kennslufræði og námsmat.
Guðmundur hefur einnig starfað með skólum að eflingu læsis, m.a. með innleiðingu Orðs af orði kennslufræðinnar, gerð hugrænna korta og innleiðingu markvissra lesskilningsaðferða á mið- og unglingastigi grunnskóla.
Guðmundur hefur leyfisbréf til sérhæfingar í leik-, grunn- og framhaldsskóla og hefur góða reynslu af kennslu í grunn- og tónlistarskóla.