Orðakennsla - öflugt málumhverfiSkiptar skoðanir eru meðal fræðimanna um hvaða orð eigi að leggja áherslu á í kennslu. Sumir telja að leggja eigi mesta áherslu á almennan orðaforða, fjölbreytileg orð. Aðrir vilja frekar miða orða- og hugtakakennslu við námsorðaforða. Í Orði af orði er lögð áhersla á hvort tveggja. Í fyrstu miðast kennslan gjarnan við almennan orðaforða en eftir því sem á líður er hún fléttuð í ríkari mæli við ólíkar námsgreinar og þá verður námsorðaforði uppistaða í námi og kennslu.
Í Orði af orði er lögð áhersla á öflugt málumhverfi, samvinnu og samræðu; að virkja forþekkingu nemenda; að nemendur geti rætt um það efni sem þeir fást við, inntak, hugtök og orð og geti tjáð sig með viðeigandi orðræðu og með því að nota viðeigandi lykilorðaforða. Einnig er lögð áhersla á að gefa góðan tíma í kennslu, að brjóta vel námsefnið til mergjar stig af stigi og að nemendur læri markvisst að rannsaka, skoða og sundurgreina námsefni - að læra; að þeir geti gert áætlanir um námsferli og geti nýtt sér fjölbreytilega námstækni. Áhersla er lögð á sýnikennslu og stuðning kennara við nám nemenda þar til þeir hafa náð sjálfstæðum tökum á náminu. Æskilegt er að flétta námsgreinar saman í stað þess að aðgreina þær. Uppistaða í málakennslu getur hæglega verið efniviður í námsgreinum, þannig má sundurgreina hugtök úr náttúrufræði og skoða merkingu þeirra, greina málfræðilega stöðu, beygingu eða stigbreytingu, tíð, fall, hátt, tölu o.s.frv. – allt eftir því sem við á. Sundurgreiningin verður leið til að efla þætti máls, s.s. málfræði og málvitund, réttritun, skrift, nýyrðasmíði og ritun og jafnframt styrkir slík vinna efnislega (náms)þekkingu. |
Orðakennsla, aldur og þroskiGraves (2016) telur að við orðakennslu þurfi að huga að aldri og þroska nemenda og því verði bæði lykilviðfangsefni og val orða að taka mið af því.
· Fyrstu lykilviðfangsefnin felast í að efla undirstöðuorðaforða sem er orðaforði talmáls. Í upphafi náms verður meginviðfangsefni í orðanámi að nemendur læri að lesa þau orð sem þeir þekkja. Yfirleitt hafa nemendur í þriðja eða fjórða bekk lesið flest orð sem þeir búa yfir í orðasafni sínu. · Þegar nemendur takast á við námsgreinar skólans er lykilatriði að útskýra vel þau hugtök sem nemendur þekkja ekki en þurfa að læra. Þannig læra nemendur ný orð sem eru framandi, fyrirfinnast ekki í hugtaka-, talorða- og ritorðasafni þeirra. Einnig læra þeir nýja merkingu á orðum sem þeir þekkja hugsanlega fyrir en í annarri merkingu. Í heildina er um þekkingaröflun að ræða því þekking er í flestum atriðum bundin orðaforða. · Eitt af lykilviðfangsefnum í orðakennslu er að virkja áður óvirkan orðaforða, orð sem nemendur skilja án þess að nota, eða geta notað, sjálfir. Það að ýta undir að nemendur noti t.d. námsorðaforða á virkan hátt eykur námslega þekkingu þeirra og vald á efninu. · Flestir nemendur þurfa að byggja upp orðaforða sinn í fleiri tungumálum, bæði þeir sem eru tvítyngdir og þeir sem eru að læra sitt annað eða þriðja mál í skóla, svo sem ensku og dönsku hér á Íslandi. Að læra annað tungumál en móðurmál í skóla er að mörgu leyti öðruvísi en að læra móðurmálið. Ekki er um samsvarandi máltöku að ræða, því í mörgum tilvikum þekkja nemendur efnið eða hugtökin, en eiga ekki erlendu orðin yfir það. |