OrðasmíðVið orðasmíði (orðmyndun) koma einkum fjórar leiðir til greina. Algengasta leiðin er að setja tvö eða fleiri orð saman (t.d. orð+smíði, rit+gerð). Önnur algeng leið er afleiðsla með forskeytum og viðskeytum (t.d. fjöl+skylda, skyn+ug). Þriðja leiðin er að nota orð sem er til en ljá því nýja merkingu (t.d. skjár). Fjórða leiðin er að laga erlend orð að íslensku máli þannig að þau falli að beygingakerfinu (t.d. skanni, dregið af scanner). Hafa þarf í huga að smíðað orð sé tiltölulega þjált og auðvelt í meðförum. Ekki er víst að hugvitssamleg nýyrði eins og sjálfrennireið eða ljóstírutemprari eigi sér lífs von þegar þjállli orð eins og bíll og dimmir standa til boða.
Til þess að smíða ný orð, orðasambönd eða setningar þarf skapandi og greinandi hugsun. Orðasmíðin getur falist í að búa til stök orð eða hugtök en hún getur einnig verið fólgin í því að raða saman orðum þannig að þau myndi sérstakt samhengi. Dæmi um orðasmíð nemenda í Orði af orði er orðið staðkenni sem merkir það sama og kennileiti. Orðið er sett saman úr orðhlutunum stað-kenn-i. Dæmi um hugvitsamlega samsetningu er setningin ég brýt heilann í hélugráum ís sem merkir að viðkomandi sé andlaus. Í báðum tilvikum hafði nemandi efnivið til að moða úr, annars vegar orðhluta og hins vegar niðurklippt ljóð þar sem orðum þess var endurraðað. Á myndinni hér fyrir neðan hafa nemendur m.a. búið til nýyrðin guðsljós (stjörnur), tímahaldari (klukka) og langsjá (kíkir).
|
Aðferðir við nýyrðasmíðiHægt er að hugsa sér margar aðferðir við nýyrðasmíð. Orðhlutavinna er kjörin aðferð til þess, einnig má taka fyrir orð og umraða stöfum þess eða orðhlutum til að kalla fram hugmyndir að nýjum orðum.
Texti sem er bútaður niður, t.d. ljóð eða íþróttafrétt, getur verið góður efniviður í að raða orðum saman á nýstárlegan hátt og búa til orðasambönd eða setningar sem hafa tiltekna merkingu. Góð aðferð er að taka fyrir hversdagslega hluti, t.d. borð, tafla, myndavél ... og smíða ný orð fyrir þá. Það kallar á greinandi og skapandi hugsun, þá er hægt að lýsa viðkomandi hlut, eiginleikum hans og lögum, án þess að nota raunverulegt heiti hans og nýta sér efniviðinn í nýyrðasmíði. Í aðalnámskrá grunnskóla (2013, bls. 100) segir: „Í nýyrðasmíð, skáldskap og alls kyns leikjum með tungumálið er verið að nýta sköpunarmátt og fjölbreytni málsins“. Eitt hæfniviðmiða í íslensku við lok grunnskóla er að nemandi geti „áttað sig á og beitt sköpunarmætti tungumálsins“ og nýtt það m.a. við nýyrðasmíð (bls. 105). Tilgangurinn með nýyrðasmíði er ekki bara sá að gefa sköpunagleði byr í seglin. Slíkt eflir orðvitund – sá sem kemst upp á lagið með að smíða orð með fyrrgreindum hætti ætti að sama skapi að vera gefið að rýna almennt í samsetningu eða samhengi orða og greina merkingu þeirra. Á myndinni hér fyrir neðan lék nemandi sér að orðinu kærleikur (sem var sjálfvalið orð dagsins) og nýtti sem efnivið í nýyrðasmíði. Í þeirri vinnu spruttu fram orðin leikær, leikkær, æruleikur og keyrær. Vel gert!
|