Markviss orðasöfnunSú aðferð að safna markvisst orðum getur tengst hvaða námsvinnu sem er. Nemendur safna orðum eftir
ákveðinni forskrift, t.d. orðum sem lýsa vinnubrögðum í sveit, á sjó eða landi; orðum sem lýsa einkennum eða útliti persóna; hugtökum í stærðfræði o.s.frv. Safna ætti jafnt og þétt í orðaskjóður, orðaveggi eða orðasöfn, viða að sér orðum úr námsefni, ljóðum, dagblöðum, daglegri umfjöllun eða umræðu o.s.frv. Orðasöfnin ætti að yfirfara reglulega, bæta í eftir því sem við á, tína úr þeim algengustu orðin (sem allir þekkja) og velja orð til að vinna með eða til að leggja áherslu á í kennslu - orð sem gott væri að nemendur notuðu eða gætu notað til að tjá sig. Markmið með orðasöfnum er að gefa tilteknum orðaforða gaum, safna orðum saman en ekki síður nýta þau á fjölbreytilegan hátt, virkja þau þannig að nemendur geti gripið til þeirra. Hluti orðasafnsins fellur örugglega undir viðmið um orð sem ætti að kenna, leggja áherslu á og æskilegt væri að nemendur nýttu á virkan hátt. |
Nokkur dæmi um orðaskjóðurDæmi um mjög einfalda orðaskjóðu, sprottna úr hugleiðingum á sögninni að fara t.d. í merkingunni Jón fór niður götuna. Hér mætti setja í stað fór orð eins og: arkaði, rauk, strunsaði, skokkaði, valhoppaði, ruddist, læddist, drattaðist, stormaði, stikaði, æddi, gekk, labbaði, lufsaðist, ráfaði, rölti, leið um, skakklappaðist, hljóp, ...
Fleiri dæmi um orðaskjóður, orðaveggi, orðafjöll ... # Tilfinningar eða lund, s.s. reið, glöð, ástfangin, kvíðin, leið, kát, geðshræring, örvinglan, ofsakæti, galsi, langrækni ... # Útlit eða háttur, s.s. há, grönn, langleit, brúnaþung, framsigin, hárprúð, ... # Tími, s.s. aftan, á 17. öld, í framtíðinni, í fyrndinni, hálf-sjö, eftirmiðdagur, háttatími, miðaldir, ... # Landslag, s.s. kinn, hvammur, öxl, kista, hóll, hæð, fell, holt, vogur, vík, tangi, nes, enni, ... # Tölfræðihugtök, s.s. líkur, hlutfall, súlurit, miðsækni, tíðni, ... # Landsvæði, s.s. akur, gresja, engjar, bali, spilda, tún, mói, mýri, teigur, ... |