Samhengi - námsferli Orð af orði felur í sér hugsun um orðakennslu til langs tíma. Stefnt er að því að efla sem best málumhverfið í skólanum, orða- og hugtakakennslu, samvinnu, samræðu, lestur, fjölbreytilega og læsistengda námstækni og námsvitund (m.a. málvitund, orðvitund og orðhlutavitund).
Aðferðirnar eru fjölmargar og virðast í fljótu bragði vera laustengdar en þær má þó oftast nota víðast hvar í námsferlinu, allt frá upphafi til loka. Þær má nota hverja fyrir sig eða í samhengi. Þótt þær séu ólíkar, toga þær í sömu átt, hvort sem þær heita orðhlutavinna, hugtakagreining eða yndislestur; í átt að betra læsi og námsárangri.
Dæmi um samhengi aðferða - námsferli Fyrir liggja námsmarkmið sem snúa að sjálfbærni. Byrjað er á að skoða hugtakið sjálfbærni og hvað felst í því. Kennari nefnir nokkur dæmi og reynir að gefa breiða mynd af merkingu hugtaksins. Þessu er fylgt eftir með KVL vinnu, þ.e. K-V (kann-vil vita). Spurt er hvað nemendur vita um sjálfbærni (og undirþætti) og um leið og fyrir koma ný hugtök er merking þeirra rædd.
Þetta er stýrð þankahríð, markmiðið er að gefa skýra mynd af merkingu hugtaksins sjálfbærni og hvað felst í því. Forþekking nemenda er virkjuð og þau setja námsvinnunni markmið (og hafa þar með tilgang) með því að draga fram það sem þau vilja vita (eða þyrftu að vita til að vera sérfræðingar í efninu) frekar um sjálfbærni. Lögð er áhersla á orð og hugtök, þau rædd, skýrð og dæmi sem eiga við um hugtökin skoðuð. Það er í eðlis sínu hugtakagreining.
Námsvinnan í kjölfarið hefst því ekki í tómarúmi heldur hefur skapast mynd af efninu í huga nemenda. Það auðveldar frekara nám að geta nýtt sér slíka forþekkingu.
Aðferðirnar sem notaðar eru í kjölfarið geta verið lítil kort, samantektir, hugtakagreining, krossglímur ... að lesa, ræða saman og rita/miðla, og í lokin fer fram uppgjör í anda KVL vinnu, þ.e. L (hef lært), þar sem nemendur gera grein fyrir hvað þau hafa lært.