Orðhlutaaðferð felur í sér að tengja saman mismunandi orðhluta, velta merkingu þeirra fyrir sér og búa til orð. Orðhlutavinna er talin hafa mjög jákvæð áhrif á orðvitund og orðaforða (Blachowicz og Fisher, 2015; Graves, 2016; Marzano, 2004; Stahl og Nagy, 2006).
Í flestum tilvikum tengja nemendur í Orði af orði orðhluta saman í kunnugleg orð en stöku sinnum verða til nýyrði sem þeir geta skilgreint og notað í setningum. Nýyrðasmíðin vekur áhuga hjá nemendum og áhugi eða námshvöt er rík forsenda þess að nemendur efli orðvitund sína (Stahl og Nagy, 2006). Orðvitund er nauðsynleg til að læra, skilja og nota orð á áhrifaríkan hátt (Graves, 2016; Scott og Nagy, 2004).
Dæmi um nýyrðasmíði í Orði af orði eru orð eins og sjónviss (hefur góða sjón), staðkenni (það sem einkennir stað, samheiti við kennileiti), matillur (finnst matur vondur) og grátvinur (vinur sem maður getur leitað huggunar til). Einnig hefur borið á viðleitni þess efnis að finna afleiddar myndir orða, finna sagnorð á grunni nafnorðs og öfugt. Orðhlutavinnan hefur því stuðlað að málfræðilegum áhuga. Hún hefur ásamt fleiri aðferðum stuðlað að vitund um hve tungumálið er greinandi en jafnframt skapandi og lifandi mál.
Í Orði af orði er lögð áhersla á að halda áfram að vinna með orðaforðann sem verður til þegar nemendur setja saman orðhluta og nota við það aðrar aðferðir í verkefninu, svo sem hugtakagreiningu, krossglímur, kortagerð og ritun eða samræður.
Sýnishorn
Myndin hér að ofan sýnir safn orðhluta, rætur, forskeyti, viðskeyti og endingar. Nemendur vinna saman, skoða hvaða orðhluta megi tengja saman í lengra orð. Sumir sjá strax að orðhlutarnir eiga saman, hafa sterka sjónræna vitund, en aðrir hljóða orðin til að greina hvort þau gætu verið til, eru gæddir sterkri hljóðvitund.
Taka má hvaða texta sem er, klippa orðin niður í orðhluta og vinna með þá. Æskilegt er að nýta námsefni í slíka vinnu, nemendur öðlast þá betri vitund um merkingu hugtakanna sem við á. Einnig ætti að vinna markvisst með algeng og merkingarbær forskeyti eins og for og frum en þá lærist merking þeirra og auðveldara verður fyrir nemendur að skilja orð eins og frum-eind og for-tíð.
Gæta þarf þess að hafa fjölbreytta orðhluta í hverju orðhlutasetti eða -safni, s.s. rætur, forskeyti, viðskeyti og endingar.