Krossglímu má tengja við hugtakagreiningu, KVL eða hvers kyns umfjöllun eða samantekt um efni. Efnisheiti (lykilhugtak eða hugmynd) er skrifað lóðrétt og hugmyndir eða orð sem tengjast því eru fléttuð lárétt inn í stafina úr því (stök hugtök/orð eða setningar) eins og sjá má á myndinni hér til hliðar. Krossglíman hefur að markmiði að tengja saman lykilhugtök og í kjölfarið má útfæra krossglímuna sem hugrænt kort og bæta jafnvel fleiri atriðum við það. Einnig mætti setja hugtökin úr krossglímunni í samhengi, t.d. með ritun eða umræðum.
Krossglíman hæfir í flestum bóklegum greinum og er líkleg til að skerpa skilning nemenda á hugtökum og samhengi þeirra. Nemendur hafa komist upp á lagið með að nota krossglímur sem glósutækni í stað hefðbundinna samantekta eða kortagerðar.
Þegar unnið er með krossglímur ætti að fylgja vinnunni eftir með endurbirtingu, frásögn, ritun, samræðum, leikjum, kortagerð ...
Sýnishorn
Hér er dæmi um notkun krossglímu í 4. bekk þar sem efniviðurinn er einnig settur í samhengi í stuttri frétt.