Skóli án aðgreiningarÍ aðalnámskrá grunnskóla segir: „Kennsla beinist að því að hjálpa nemendum að tileinka sér þekkingu, leikni og jákvætt viðhorf og öðlast þannig þá hæfni sem stefnt er að í menntun. Í skóla án aðgreiningar á að ríkja fjölbreytni í vinnubrögðum og kennsluaðferðum. Kennarar bera faglega ábyrgð á að velja árangursríkustu leiðirnar til að ná sem bestum árangri í samræmi við hæfniviðmið sem stefnt er að hverju sinni. Við val á kennsluaðferðum og vinnubrögðum ber að taka tillit til aldurs, þroska og getu nemenda sem í hlut eiga og eðlis viðfangsefnisins. Vönduð kennsla, sem lagar sig að þörfum og stöðu einstakra nemenda í skóla án aðgreiningar, eykur líkur á árangri (bls. 46).“
„Val á kennsluaðferðum og skipulag skólastarfs verður að miðast við þá skyldu grunnskóla að sjá hverjum nemanda fyrir bestu tækifærum til náms og þroska. Kennslan verður að taka mið af þörfum og reynslu einstakra nemenda og efla með nemendum áhuga og vinnugleði. Kennsluhættir skulu taka mið af jafnrétti og jafnræði (bls. 46–47).“
|
Orð af orði og skóli án aðgreiningarRannsókn á innleiðingu Orðs af orði í 4. bekk í fjórum bekkjardeildum leiddi í ljós aukinn orðaforða nemenda í lok innleiðingar án tillits til stöðu þeirra við upphaf innleiðingarinnar (Guðmundur Engilbertsson, 2010). Það bendir til að Orð af orði henti vel öllum nemendum. http://hdl.handle.net/1946/5890
Meistaranemi sem rýndi í hvernig best mætti koma til móts við nemendahóp sinn og efla læsi hans með því að nota Orð af orði kennslufræðina og hugsjón um skóla án aðgreiningar skrifaði eftirfarandi í ágrip meistaraprófsritgerðar sinnar: „Helstu niðurstöður voru að með því að innleiða og kenna eftir aðferðum Orðs af orði breyttust kennsluhættir mínir; ég varð sátt við þær aðferðir sem ég tileinkaði mér og áttaði mig á mikilvægi þess að kenna eftir markmiðum í stað námsbóka. Nemendur öðluðust verkfæri til að efla læsi sem þeir nýttu sér til að vinna með og skilja innihald texta. Í ljós kom hversu vel menntastefnan og þróunarverkefnið héldust í hendur og hve vel þessar aðferðir nýttust til að koma til móts við alla nemendur á þeirra forsendum.“ (Hrefna Ósk Þórsdóttir, 2016). http://hdl.handle.net/1946/26028 Meistaranemi sem rýndi í aðferðir til að efla orðaforða nemenda af erlendum uppruna og beitti kennsluinngripum til þess skrifaði um bættan árangur þeirra: „Það bendir til þess að þær kennsluaðferðir sem notast var við hafi gert það að verkum að tilætlaður árangur náðist. Þær kennsluaðferðir sem notast var við eru hluti af kennslufræðinni Orði af orði sem byggir á því að efla læsi, orðaforða og almennan námsárangur barna (Katrín Júlía Pálmadóttir, 2017). http://hdl.handle.net/1946/28200 |