Lýðræði og mannréttindiAukið vald á máli, aukið sjálfstraust til að miðla hugsun sinni og virkari þátttaka í umræðu og samræðu við aðra eru þættir sem geta stuðlað að því að nemendur verði virkari þátttakendur í lýðræði.
|
JafnréttiErlendar rannsóknir hafa sýnt mikinn mun á orðaforða, námsárangri og velferð eftir bakgrunni eða félags- og efnahagslegum aðstæðum. Börn sem alast upp við erfiðar aðstæður eiga oft fyrir höndum þrautagöngu á leið til læsis. Fræðimenn hafa því talið mjög aðkallandi að jafna stöðu nemenda með markvissri lestrar-, lesskilnings- og tungumálakennslu. Talið er að það stuðli að meira jafnrétti fyrir nemendur með ólíkan bakgrunn. Kennarar í Orði af orði hafa sagt að nemendur sýni vinnubrögðum í kennslufræðinni mikinn áhuga, að sumar aðferðanna henti drengjum mjög vel, að sumar aðferðanna virki jafnvel eins og segull fyrir nemendur með ofvirkni og að nemendur séu virkari og meira skapandi í vinnu þar sem aðferðir í verkefninu eru notaðar í stað annarra og "hefðbundnari" vinnubragða. Sérkennarar og nýbúakennarar hafa sagt að aðferðir í Orði af orði nýtist vel í kennslu og komi vel til móts við stöðu og þarfir nemenda. Í rannsókn á afmörkuðum hluta Orðs af orði kennslufræðinnar sýndu niðurstöður að nemendur sem tóku þátt í verkefninu bættu stöðu sína á stöðluðu orðaforðaprófi burtséð frá kyni eða upphafsárangri. Álykta má af ofangreindum forsendum að Orð af orði geti vel stutt við jafnrétti.
|