Námsferli á þremur stigum Orð af orði tekur mið af líkani um læsi á þremur stigum sem einnig má lýsa sem námsferli. Grunnnám (surface literacy learning) felur í sér öflun grunnþekkingar og að tileinka sér vinnulag í slíku námi. Hér er um yfirborðsgerð læsis að ræða. Djúpnám (deep literacy learning) felur í sér að dýpka grunninn og öðlast dýpri eða sértækari skilning á honum. Það felur einnig í sér að temja sér gagnrýna hugsun og námstækni sem stuðlar að djúpu námi. Hér er um djúpgerð læsis að ræða. Yfirfærslunám (transfer literacy learning) felur í sér að nýta sér þekkingu sína til frekari merkingarsköpunar - að öðlast hæfni til að tengja saman ýmsa þætti þekkingar og endurbirta á nýjan, skapandi og greinandi hátt. Hér er um yfirfærslu- eða nýmyndunargerð læsis að ræða.
Á hverju stigi er ýmist lögð áhersla á að nota mismunandi aðferðir eða að nota aðferðir verkefnis á mismunandi hátt á hverju stigi eftir því sem við á.