KVL aðferðinKVL eða Kann, Vil vita, hef Lært (e. KWL, Know, Want to know, Learned) er aðferð sem nýtist mjög vel í námi og er fyrirtaks leið til að tengja saman forþekkingu nemenda og nýtt nám - að kalla fram úr minni og skrá forþekkingu, setja sér og skrá markmið um frekari öflun þekkingar, skrá svo afrakstur að námi loknu og horfa á ferlið í heild.
Ferlið er gjarnan þannig að byrjað er á að ræða um efni eða orð og tiltaka allt sem nemendur vita eða kunna um það. Það er gjarnan skráð á vinnublað sem er þrískipt, þ.e. í K-V-L dálka, í K-dálkinn. Næsta skref felur í sér að ræða um hvað nemendur vilja vita meira um efnið og skrá það í V-dálkinn. Þar með hafa nemendur sett sér markmið í náminu. Þeir afla sér svo frekari þekkingar og skrá hana niður í L-dálkinn. Mikilvægt er að ígrunda vel vinnublaðið, færa t.d. ekki allt inn sem nemendum dettur í hug heldur forgangsraða - taka saman þau atriði sem þeim þykja mikilvægust. Í lokin ættu nemendur svo að gera upp - skoða það sem þeir skráðu í K-dálkinn og leiðrétta ef þar voru efnislegar villur, skoða hvort þeir hafi náð markmiðum sínum (V), og taka saman allt það sem þeir vissu fyrir og það sem þeir lærðu. |
Hér fyrir ofan er dæmi um KVL vinnublað lítils hóps nemenda í 6.–7. bekk sem vinna að þemanu lífríki í fersku vatni. Eins og sést á myndinni vissu nemendur fyrir ýmislegt um efnið og vildu auk þess vita ýmislegt fleira um það. Námið hefur einnig skilað þeim nýrri þekkingu.
Aðferðin nýtist vel á öllum stigum líkans Orðs af orði en einkum í upphafi á fyrsta stigi og í lokin á þriðja stigi líkansins. Í kjölfarið mætti ræða efnið, setja það upp í krossglímu, kortleggja það eða skrifa um það. Ekki er ólíklegt að nemendur þurfi einnig að leita skýringar á merkingu orða og hugtaka og jafnvel setja efnið í samhengi við annað efni. Slík endurbirting og úrvinnsla stuðlar að virkri þekkingu. Aðferðin er vel þekkt og má m.a. gúggla og skoða á YouTube. Ágæta lýsingu á KVL má finna á læsisvef MMS. |