HugsmíðalíkanOrð af orði byggir á hugmyndum sem tengjast hugsmíðahyggju, annars vegar um nám á svæði mögulegs þroska (með stuðningi) og hins vegar hugmyndum um gildi tungumálins sem lykilverkfæri hugans (Vygotsky, 1978).
Orð af orði byggir einnig á hugmyndum um samvirkar (e. interactive constructive) aðferðir (Plaut, 2005; Rumelhart, 1985; Tracey og Morrow, 2017) og hvernig hugurinn vinnur úr upplýsingum (e. information processing theory) með því að skyggnast bæði inn á við og út á við í úrvinnslu sinni (Marzano, 2004; Tracey og Morrow, 2017). Kennsluhugmyndir fela í sér stuðning (e. scaffolding) í formi sýnikennslu í fyrstu, þá kennslu með stigvaxandi þátttöku nemenda allt þar til þeir þurfa ekki lengur á stuðningi að halda (Scott og Nagy, 2004). |
Skipulag kennsluOrð af orði byggir á því að skipuleggja þurfi orðakennslu til langs tíma, hún þurfi að fela í sér (a) að efla sem best málnotkun í námsumhverfinu, (b) að kenna markvisst mál, orð og hugtök, (c) að kenna nemendum stig af stigi aðferðir sem þeir geta notað sjálfstætt til að greina merkingu orða og (d) að byggja upp aukna orðvitund (og námshvöt) og hlúa að henni (Graves, 2016).
Í Orði af orði er lögð áhersla á samvinnu og samræðu, að byggja nám á traustum grunni, að taka mið af námsforsendum (e. readiness) og forþekkingu nemenda og að hvetja þá til virkrar þátttöku í náminu. Í Orði af orði er auk þess stuðst við margar ólíkar aðferðir og fjölbreytilega námstækni. Lögð er áhersla á yfirferð í námi sem tryggir þekkingu og góðan skilning, virkan orða- og hugtakaforða þannig að nemendur læri ekki aðeins, heldur geti jafnframt miðlað þekkingu sinni. |