Gagnvirkur lesturÍ gagnvirkum lestri er lögð áhersla á lestrarlag sem beinir huga lesandans að efninu og sjálfum sér, fær hann til að tengja efnið fyrri þekkingu sinni og beita ályktunarfærni sinni, lesa milli lína, gæta vel að því sem er óljóst og spyrja sig spurninga um efnið og eigin skilning. Aðferðina er hægt að nota sem ferli en jafnframt má leggja áherslu á staka þætti hennar, að taka saman meginefni, spyrja sig spurninga, leita útskýringa á orðum, hugtökum og efni þegar það er óljóst og spá fyrir um framhaldið. Margar rannsóknir benda til þess að gagnvirkur lestur auki skilning nemenda á les- og námsefni (Brown
og Palincsar, 1985; Galloway, 2003; Hattie, 2009; NRP, 2000; Rosenshine og Meister, 1994). Markvissa þjálfun með stuðningi kennara þarf til að nemendur nái góðum og sjálfstæðum tökum á aðferðinni og geti nýtt hana sér til gagns. Prýðilega handbók um gagnvirkan lestur er að finna á vef Námsgagnastofnunar (Anna Guðmundsdóttir, 2019). |
FramvindaGagnvirkur lestur felur í sér ákveðið ferli. Nemendur byrja á að lesa texta og draga saman aðalatriðin úr honum. Því næst spyrja þeir sig spurninga um inntak textans og eigin skilning. Þeir leita skýringa á því sem er óljóst í textanum, efni eða orðum, eftir því sem við á og þeir spá fyrir um framhald textans.
Sumir textar eru þess eðlis að erfitt er að spá fyrir um hvað gerist. Það á t.d. stundum við um fræðitexta. Þá er því sleppt, nema kaflafyrirsagnir eða myndir gefi vísbendingu um framhaldið. Sumir textar eru þannig að erfitt getur verið að spyrja opinna spurninga um textann og þá spyr lesandinn staðreyndaspurninga til að skerpa þekkingu sína og festa atriði textans betur í minni. Stundum getur átt við að leggja áherslu á alla þætti aðferðarinnar og stundum fáa. |