HugtakagreiningHugtakagreining felur í sér að skoða vandlega hugtök og greina merkingu þeirra. Í aðferðum eins og orði dagsins og krossglímugerð er fjallað um merkingu hugtaks, samhengið sem á við hugtakið og tengsl þess við önnur hugtök. Slíkt er hugtakagreining í þeim skilningi að skoða hvað hugtakið felur í sér og hvað ekki.
Í Orði af orði læra kennarar og nemendur að nota líkan sem kennt er við Frayer en það má nota bæði við tilleiðslu (e. induction) og afleiðslu (e. deduction). Ef hugtak er þekkt en skerpa þarf skilning á merkingu þess, er rætt um það út frá tilleiðslu, stökum dæmum sem eiga við um hugtakið (hvað er x), andstæðum dæmum (hvað er x ekki), orðuð er merkingarbær lýsing á hugtakinu, þ.e. hvað það felur í sér og hvað það er sem einkennir það (samnefnari) og að lokum er smíðuð skilgreining eða hún skoðuð (ef hún er gefin). Líkanið má einnig nota til að kenna alveg ný hugtök, þá út frá afleiðslu – þ.e.a.s. byrja á skilgreiningu, þá lýsingu og að lokum dæmum. |
Hvenær hentar að nota Frayer líkan?Aðferðin er kjörin til að vinna með hugtök eins og lýðræði, virðingu og umhverfisvernd til að skerpa skilning á þeim en aðferðin á einnig við um námshugtök eins og valllendi, vatnsrof, dreifkjörnunga, samlagningu eða flatarmál.
Aðferðin hæfir því mjög vel í flestum bóklegum greinum. Aðferðin getur verið undanfari frekari vinnu með orð eða efnivið, krossglímur, orð dagsins, flokkun, kortlagningu... Einn af kostum þess að nota Frayer líkanið er hversu þekkt það er. Það má nota á fjölbreyttan hátt og dæmi þess efnis er víða að finna á veraldarvefnum. |