Orð dagsins er aðferð sem felur í sér greiningu á merkingu orða, samhengi þeirra og frekari sundurgreiningu. Aðferðin hefur skírskotun í hugmyndir fræðimanna um einkenni markvissrar orðakennslu. Í aðferðinni er fjallað ítarlega um valin orð, í samhengi en slíkt er talið mikilvægt (Beck, McKeown og Kucan, 2013; Graves, 2016; Kamil og Hiebert, 2005; Nagy, 2005). Orðin eru einnig brotin niður í orðhluta og fjallað um þá á sambærilegan hátt og orðin.
Efniviður kennslunnar er fjölbreytilegur orðaforði sem settur er í samhengi við reynslu og fyrri þekkingu nemenda en slíkt er talið mikilvægt þegar orðanám á í hlut (Beck, McKeown og Kucan, 2013; Block og Mangieri, 2006; Graves, 2016; Kamil og Hiebert, 2005; Marzano, 2004; Nagy, 2005).
Orð dagsins er aðferð sem tilheyrir fyrst og fremst fyrsta og öðru stigi líkans Orðs af orði.
Það fer eftir markmiðum náms hve viðamikil sundurgreiningin er. Í tungumálakennslu má sem dæmi taka marga þætti fyrir. Í námsgreinum eins og náttúrufræði, stærðfræði og samfélagsfræði ætti að leggja áherslu á hugtakagreiningu, merkingu og samhengi orðsins og tengsl þess við önnur orð/hugtök.
Þannig má nýta aðferðina til að skoða jafnt yfirborð sem undirlög, allt eftir markmiðum náms.
Dæmi úr kennslu
Hér er dæmi úr vinnu nemenda í íslensku í 6. bekk, orðið matartími er skoðað. Hér er ekki lögð megináhersla á hugtakið heldur samsetningu orðsins, orðhlutana og hvernig þeir tengjast öðrum orðhlutum eða orðum. Eins og sjá má hefur nemendum tekist að finna mörg orðasambönd þar sem orðið matartími eða hlutar þess koma fyrir. Í leiðinni læra þeir merkingu orðasambandanna og geta vonandi (með hvatningu) notað þau á virkan hátt. Það stuðlar að blæbrigðaríkum orðaforða.